Hughes: Viðbrögðin sýna hvert við erum komnir

Það fór vel á með Mark Hughes og Alex Ferguson …
Það fór vel á með Mark Hughes og Alex Ferguson í gær, enda miklir mátar þrátt fyrir skeytasendingar í fjölmiðlum síðustu dagana fyrir stórleikinn. Reuters

Mark Hughes, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að viðbrögðin hjá Alex Ferguson og Gary Neville í leikslok grannaslagsins á Old Trafford í gær sýni að City sé farið að ógna bestu liðum Englands.

„Neville lét eins og brjálæðingur," sagði Hughes um Gary Neville sem tók á sprett í áttina að stuðningsmönnum City eftir að flautað var af en sá sig síðan greinilega um hönd og skokkaði til baka eins og hann væri að "hlaupa sig niður."

Hughes sagði að fögnuður Fergusons þegar Michael Owen skoraði sigurmarkið á sjöttu mínútu í uppbótartíma minnti sig á frægt hlaup United-stjórans eftir leik gegn Sheffield Wednesday árið 1993. Þá hlupu Ferguson og aðstoðarmaður hans, Brian Kidd, inná völlinn eftir að United tryggði sér sigur í uppbótartíma.

„Þetta minnti mig svo sannarlega á Alex og Brian Kidd og viðbrögð þeirra segja allt um hvað þessi sigur þýddi fyrir þá, og hvert við erum komnir. Þau sýna líka að við erum farnir að ógna þeim. Við jöfnuðum leikinn þrisvar og sýndum mikil gæði og styrk í okkar leik," sagði Hughes við Sky Sports.

Hughes lék undir stjórn Fergusons með Manchester United í sjö ár, frá 1988 til 1995, og hafði áður spilað með félaginu í sex ár, frá 1980 til 1986. Í millitíðinni lék hann með Barcelona og Bayern München.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert