Liverpool marði Leeds á Elland Road

Carlos Vela skoraði síðara mark Arsenal.
Carlos Vela skoraði síðara mark Arsenal. Reuters

Frakkinn ungi David Ngog tryggði Liverpool farseðilinn í fjórðu umferð ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld. Liverpool sótti 2. deildarlið Leeds heim á Elland Road og marði 1:0 sigur en Leedsarar stóðu svo sannarlega uppi í hárinu á úrvalsdeildarliðinu.

Ngog skoraði sigurmarkið af stuttu færi á 66. mínútu leiksins. Steven Gerrard lék síðasta stundarfjórðunginn fyrir Liverpool og Fernando Torres kom inná á 84. mínútu.

Ungt lið Arsenal hrósaði 2:0 sigri á WBA. Sanchez Watt og Carlos Vela gerðu mörk Arsenal í seinni hálfleik en gestirnir frá WBA léku manni frá 37. mínútu þegar Jerome Thomas var vikið af velli.

Barnsley gerði sér lítið fyrir og lagði úrvalsdeildarlið Burnley, 3:2. Jóhannes Karl Guðjónsson lék allan tímann fyrir Burnley en Emil Hallfreðsson gat ekki leikið með Barnsley vegna meiðsla.

Sunderland lagði Birmingham á Leikvangi ljóssins, 2:0. Jordan Henderson og Fraizer Campbell gerðu mörk heimamanna í fyrri hálfleik.

Benedict McCarthy tryggði Blackburn 1:0 útisigur á Nottingham Forest.

Portsmouth fagnaði sínum fyrsta sigri en liðið sótti Carlisle heim og hafði betur, 3:1. Dindane, Webber og Vanden Borre gerðu mörk Portsmouth, sem lék án Hermanns Hreiðarssonar.

Stoke hafði betur gegn Blackpool, 4:3, í hreint ótrúlegum leik þar sem Andy Griffin skoraði sigurmarkið á sjöttu mínútu í uppbótartíma. Stoke lenti 2:0 undir en fimm mörk voru skoruð á síðustu 15 mínútum leiksins.

Framlenging stendur yfir í viðureign Bolton og West Ham en staðan eftir venjulegan leiktíma var, 1:1. Ljóst er að Grétar Rafn Steinsson kemur ekkert við sögu hjá Bolton en hann er á bekknum og Gary Megson er búinn að nota allar þrjár skiptingarnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert