Fjórum leikjum er lokið í 3. umferð ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu þar sem úrvalsdeildarliðin fögnuðu öll sigrum, Aston Villa, Chelsea, Everton og Tottenham.
Aston Villa marði Cardiff á Villa Park, 1:0, og skoraði Gabriel Agbonlahor sigurmarkið á 3. mínútu.
Chelsea hafði betur gegn grönnum sínum í QPR, 1:0, og skoraði Salomon Kalou sigurmarkið snemma í síðari hálfleik. Joe Cole og Júri Shirkov léku sína fyrstu leiki með Chelsea á tímabilinu.
Everton burstaði Hull á útivelli, 4:0. Yakubu, Jo, Danny Gosling og Leon Osman gerðu mörkin fyrir Everton á fyrstu 57. mínútum leiksins.
Tottenham vann stórsigur á Preston á útivelli, 5:1. Peter Crouch skoraði þrennu fyrir Tottenham og þeir Jermain Defoe og Robbie Keane gerðu sitt markið hver.