Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, hefur bent liðsmönnum sínum á að taka Gary Neville, hinn reynda leikmann Manchester United, sér til fyrirmyndar.
Neville fór hamförum af fögnuði þegar Manchester United tryggði sér sigur á Manchester City, 4:3, á sunnudaginn, enda þótt hann tæki ekki þátt í leiknum og sæti á varamannabekknum allan tímann. Litlu munaði að hann færi yfir strikið og ögraði stuðningsmönnum City en sá að sér á síðustu stundu.
„Sjáið bara Gary Neville, mann sem hefur unnið allt sem hægt er að vinna, meistaratitil eftir meistaratitil eftir meistaratitil. Sjáið hversu ánægður hann var með sigurmark síns liðs þó hans hlutskipti væri að vera varamaður. Hann sat ekki á bekknum með krosslagðar hendur. Hann stökk hærra en Ferguson af fögnuði þegar sigurmarkið kom. þetta er ástæðan fyrir því að Manchester United er komið svona langt, og nær öllum þessum árangri," sagði Redknapp við Sky Sports.