Portsmouth tapaði sjöunda leiknum í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið lá á heimavelli fyrir Everton á Fratton Park, 0:1. Það var Louis Saha sem skoraði sigurmarkið á 42. mínútu leiksins með föstu skoti úr vítateignum.
Portsmouth hefur þar með tapað öllum sjö leikjum sínum í deildinni en ekki er hægt að segja að heppnin hafi verið á bandi heimamanna. Þeir fengu fjölmörg færi en var fyrirmunað að skora. Hermann Hreiðarsson var fjarri góðu gamni en Eyjamaðurinn er frá vegna meiðsla.
Everton er komið með 9 stig og er hægt og bítandi að rétta úr kútnum en liðið byrjaði mótið hræðilega, tapaði 1:6 á heimavelli fyrir Arsenal.