Chelsea tapaði sínum fyrsta leik í ensku úrvaldeildinni á þessari leiktíð þegar liðið beið lægri hlut fyrir Wigan, 3:1, á útivelli. Meistarar Manchester United lögðu Stoke, 2:0, og komust upp að hlið Chelsea í efsta sæti, Fernando Torres skoraði þrennu í stórsigri Liverpool á Hull og það sama gerði Robbie Keane þegar Tottenham skellti Burnley.
Dimitar Berbatov og John O'Shea gerðu mörkin fyrir Manchester United í seinni hálfleik á Britiannia. Ryan Giggs, sem kom inná fyrir Nani á 46. mínútu, lagði upp bæði mörkin fyrir United sem hefur nú unnið sex leiki í röð.
Chelsea lenti í hremmingum á JJB Stadium í Wigan. Titus Bramble kom Wigan yfir snemma leiks en Didier Drogba jafnaði fyrir Chelsea á 47. mínútu. Þremur mínútum síðar var Petr Cech markvörður Chelsea rekinn af velli þegar hann braut á Hugo Rodallega innan teigs. Hann tók vítið sjálfur og skoraði og undir lok leiksins innsiglaði Paul Scharner sigur Wigan.
Robbie Keane var maður dagsins á White Hart Lane en Írinn knái gerði sér lítið fyrir og skoraði 4 mörk þegar Tottenham burstaði Burnley, 5:0. Jóhannes Karl Guðjónsson lék allan tímann fyrir Burnley.
Fernando Torres skoraði sína þriðju þrennu fyrir Liverpool þegar liðið rótburstaði Hull, 6:1, á Anfield. Steven Gerrard, Ryan Babel og Albert Riera gerðu hin mörkin en Geovanni skoraði mark gestanna og jafnaði metin í 1:1.
Grétar Rafn Steinsson kom ekkert við sögu hjá Bolton sem sigraði Birmingham á útivelli, 2:1. Tamir Cohen og Chung-Yong Lee gerðu mörk Bolton.