Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Chelsea vonar að sýnir menn nái sér strax á strik aftur eftir hið óvænta tap liðsins gegn Wigan í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Chelsea tapaði sínum fyrstu stigum á tímabilinu a DW vellinum í Wigan þar sem heimamenn fóru með sigur af hólmi, 3:1.
Chelsea mætir Apoel Nicosia í Meistaradeildinni á miðvikudaginn og tekur síðan á móti Liverpool í toppslag í úrvalsdeildinni um næstu helgi.
,,Þetta er mikilvægur leikur og ég er alveg viss um að við munum gera betur en við gerðum á móti Wigan. Við þurfum að svara vel fyrir okkur eftir þetta tap og stundum þegar þú tapar þá kemur ný hvatning,“ sagði Ancelotti við Sky fréttavefinn í kvöld.
,,Ekki veit ég af hverju við töpuðum fyrir Wigan því við undirbjuggum okkur vel og vissum um mikilvægi leiksins. En svona getur gerst eftir mikla sigurhrinu og við verðum bara að sætta okkur við þetta tap og koma hlutunum í lag í næsta leik okkar sem er í Meistaradeildinni,“ sagði Ítalinn.