Sádi-arabíski prinsinn Faisal bin Fahd bin Abdullah al-Saud hefur staðfest að sé í þann veginn að kaupa helminginn í enska knattspyrnufélaginu Liverpool. Hann kveðst tilbúinn til að greiða hærri upphæð fyrir hálft félagið en núverandi eigendur, Tom Hicks og George Gillett, greiddu fyrir félagið í heild á sínum tíma.
Prinsinn staðfesti þetta við dagblaðið Al-Riyadh í dag og jafnframt að fyrirtæki sitt, F6, hefði þegar samið við Gillett um að setja upp fótboltaakademíur, tvær í Sádi-Arabíu og tvær í Norður-Afríku. Hann var á Anfield á laugardaginn og sá þar Liverpool gjörsigra Hull City, 6:1, og gekk þá frá samningum um akademíurnar.
„Það verður gengið frá kaupunum fljótlega og verðið er á bilinu 200-350 milljónir punda. Þetta yrði stórkostlegt því Liverpool er eitt af bestu og frægustu liðum í Englandi og öllum heiminum," sagði prinsinn í viðtalinu.
Hicks og Gillett greiddu 174 milljónir punda fyrir Liverpool en skuldir félagsins í dag nema 245 milljónum punda.