Michael Owen fór meiddur af velli eftir aðeins 20 mínútna leik þegar Manchester United vann Wolfsburg, 2:1, í Meistaradeild Evrópu á Old Trafford í kvöld. Hann verður líklega frá keppni í þrjá vikur.
Owen tognaði í nára með þessum afleiðingum og Dimitar Berbatov leysti hann af hólmi. „Það er alltaf erfitt að meta nárameiðsli, kannski verða þetta tvær til þrjár vikur hjá honum, en hann er í góðri æfingu," sagði Alex Ferguson knattspyrnustjóri United við fréttamenn eftir leikinn.
Wolfsburg komst yfir í leiknum en Ryan Giggs jafnaði metin og lagði svo upp sigurmarkið fyrir Michael Carrick.