Carlos Tevéz, argentínski framherjinn í liði Manchester City, ætlar að fagna hverju marki sem hann gerir á móti Manchester United en leikmaðurinn er mjög ósáttur með móttökurnar sem hann fékk hjá stuðningsmönnum United í viðureign Manchester-liðanna á Old Trafford á dögunum.
Tevéz skoraði tvö mörk gegn sínum fyrri félögum í West Ham í fyrrakvöld en hann fagnaði þeim ekki og áður hafði hann sagt að hann ætlaði ekki að fagna ef honum tækist að skora á móti Manchester United sem hann lék með í tvö ár. Honum hefur nú snúist hugur.
,,Ég hafði ákveðið að fagna ekki ef ég skoraði. Það vildi ég gera í tillitsemi við West Ham. Það var mitt fyrsta félag á Englandi. Það er í hjarta mínu og hluti af mér mun alltaf verða með West Ham,“ segir Tevéz í viðtali við enska blaðið Daily Mail.
,,Í grannslagnum á móti Manchester United þá hafði ég líka ákveðið að fagna ekki mörkum okkar en eftir meðferðina sem ég fékk hjá stuðningsmönnum United hef ég ákveðið að taka aðra afstöðu. Ef mér tekst að skora í næsta grannslag þá er ég ákveðinn í að fagna,“ segir Tevéz.