Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segir að Arsenal standi í mikilli þakkarskuld við Arsene Wenger en Frakkinn náði þeim áfanga í vikunni að vera sá stjóri sem hefur unnið lengst samfleytt hjá félaginu en 13 ár eru liðin frá því Wenger settist í stól knattspyrnustjóra Lundúnaliðsins.
Þeir Ferguson og Wenger hafa oft eldað grátt silfur saman innan sem utan vallar en eftir því hefur þó verið tekið að þeir hafa róast út í hvorn annan á síðustu árum.
,,Arsene hefur náði því besta út úr Arsenal. Síðan hann fór til liðsins þá hefur árangur liðsins verið frábær. Hann hefur trú á sínum leikmönnum og það gera leikmenn líka. Þess vegna hefur hann verið svona lengi hjá félaginu. Ég las viðtöl við leikmenn Arsenal í fyrradag og þau segja allt sem segja þar. Þeir eiga honum mikið að þakka,“ segir Ferguson sem sjálfur hefur starfað hjá Manchester United í 23 ár.
,,Lið hans spilar skemmtilegan fótbolta og leikvangur liðsins er fullur í hverri viku. Hann hefur reynst Arsenal frábær knattspyrnustjóri. Það er engin spurning um það.“