Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri enska 1. deildarliðsins Reading, er hæstánægður með frammistöðu Ívars Ingimarssonar, sem er nýbyrjaður að spila aftur eftir átta mánaða fjarveru vegna meiðsla. Rodgers segir að það hafi komið sér verulega á óvart hve fljótur Ívar, sem var gerður að fyrirliða Reading í sumar, hafi verið að komast í sitt gamla form.
Reading byrjaði tímabilið afleitlega og hefur verið meðal neðstu liða en í tveimur fyrstu leikjum Ívars var annar og betri bragur á liðinu og það fékk fjögur stig úr þeim, með þriggja daga millibili. Fyrst gerði Reading jafntefli, 1:1, við Watford í grannaslag, og vann síðan eitt efstu liðanna, Preston, 2:1 á útivelli.
„Ívar hefur leikið virkilega vel og ég held að menn séu að átta sig á því hve stórt hlutverk hann lék í þessum tveimur leikjum. Ef ég á að vera hreinskilinn kom það mér verulega á óvart. Ég átti ekki von á að hann hefði svona mikil áhrif á liðið. Hann hefur verið frábær, komið ró á mannskapinn og spilað mjög vel sjálfur, og hann og Darren hafa verið mjög traustir í vörninni," sagði Rodgers á vef Reading.
Stjórinn vék einnig að frammistöðu Brynjars Björns Gunnarssonar. „Kraftur hans og einbeiting á miðjunni eru fyrsta flokks," sagði Rodgers, sem tók við liði Reading í sumar þegar Steve Coppell hætti störfum eftir að hafa mistekist að koma Reading aftur uppí úrvalsdeildina.