Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United gerði líkamsástand Alans Wileys dómara að aðal umræðuefni eftir jafnteflið við Sunderland, 2:2, á Old Trafford í dag. Steve Bruce, fyrrum lærisveinn hans sem nú stýrir Sunderland, sagði hinsvegar að jafnteflið væri eins og tap, miðað við hvernig leikurinn þróaðist, en United jafnaði metin í uppbótartíma þegar Anton Ferdinand, miðvörður Sunderland, varð fyrir því að senda boltann í eigið mark.
„Þessi leikur var svo hraður að það hefði þurft dómara sem væri í standi. Hann var ekki í ástandi til að dæma leikinn. Erlendis geta dómararnir hlaupið eins og hundar. Þessi eyddi 30 sekúndum í að gefa leikmanni áminningu, bara til að ná andanum sjálfur. Þetta var fáránlegt," sagði Ferguson við BBC, sem nokkrum sinnum rauk að hliðarlínunni til að láta óánægju sína í ljós.
Hann vildi líka fá meira en 4 mínútur í uppbótartíma vegna tafa sem hefðu orðið við jöfnunarmarkið. „Hann bætti við 4 mínútum og 2 sekúndum en samt þurfti hann sjálfur að ganga að miðju vallarins eftir markið til að ná að hvílast aðeins," sagði Ferguson, sem líka gagnrýndi sína menn.
„Seinna markið þeirra var ódýrt og sendingarnar okkar voru mjög slakar í fyrri hálfleiknum. Við þurftum að sýna hvað í okkur bjó á lokamínútunum til að fá eitthvað útúr virkilega slökum leik," sagði Ferguson.
Steve Bruce var heldur ekki ánægður og sagði jafnteflið jafngilda tapi. „Þetta eru gífurleg vonbrigði. Ég veit ekki hve oft Manchester United hefur leikið það að skora svona seint en sennilega er það hluti af skýringunni á því hve langt þetta félag hefur náð. Þeir fá alltaf eitthvað útúr leikjunum þó þeir spili ekki vel. Og Ajatollinn sjálfur situr bara og horfir á þá. Hann hefur skapað þetta - þeir gefast aldrei upp," sagði Bruce og var reiður út í Kieran Richardson sem fékk kjánalegt rautt spjald 5 mínútum fyrir leikslok - sparkaði boltanum í burtu eftir að dæmt var á hann og fékk sitt annað gula spjald.
„Þetta var heimskulegt. Það er nógu erfitt að verjast á þessum velli með 11 mönnum. Svona gerist í hita leiksins en þetta gæti hafa ráðið úrslitum," sagði Steve Bruce.