Arsenal lyfti sér upp 4. sætið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag með stórsigri á Blackburn, 6:2, í bráðfjörugum leik á Emirates-leikvanginum. Cesc Fabregas lagði upp fjögur marka Arsenal og skoraði eitt sjálfur.
Arsenal er komið með 15 stig eins og Liverpool og Manchester City, en er með betri markatölu.
Bein textalýsing frá Emirates-leikvanginum.
Blackburn náði forystunni á 4. mínútu með nokkuð sérstöku marki. Paul Robinson markvörður Blackburn tók aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi liðsins og þrumaði boltanum inní vítateig Arsenal þar sem Frakkinn Steven Nzonzi skallaði hann afturfyrir sig, yfir Mannone markvörð og í netið, 0:1.
Arsenal jafnaði metin á 17. mínútu þegar Thomas Vermaelen, belgíski varnarmaðurinn, þrumaði boltanum í netið af rúmlega 20 metra færi eftir sendingu frá Cesc Fabregas, 1:1.
Þrátt fyrir þunga pressu Arsenal var það Blackburn sem náði forystunni á ný. Eftir skyndisókn á 30. mínútu fékk David Dunn boltann vinstra megin í vítateignum og þrumaði honum í markhornið nær, með viðkomu í varnarmanni, 1:2.
Arsenal var ekki lengi að svara fyrir sig því á 33. mínútu jafnaði Robin van Persie eftir sendingu frá Fabregas í gegnum miðja vörn Blackburn, 2:2.
Á 37. mínútu náði Arsenal síðan forystunni. Fabregas var enn á ferð og renndi nú boltanum inní vítateiginn á Andrei Arshavin sem skoraði með föstu skoti, 3:2.
Fabregas var búinn að leggja upp þrjú fyrstu mörk Arsenal og á 57. mínútu var komið að honum sjálfum. Fyrirliðinn fékk boltann frá Tomás Rosický og þrumaði honum með vinstri fæti frá vítateig, beint uppí markvinkilinn vinstra megin, 4:2.
Á 75. mínútu átti Arsenal magnaða skyndisókn sem lauk með því að Fabregas, hver annar, lagði boltann til hliðar á Theo Walcott við vítateigslínu og Walcott þrumaði boltanum í markið, 5:2.
Á 89. mínútu lét annar varamaður að sér kveða. Nicklas Bendtner fékk boltann fyrir utan vítateiginn vinstra megin, lék innað miðju og þrumaði honum í stöng og inn af 20 metra færi, 6:2.
Lið Arsenal: Mannone, Sagna, Gallas, Vermaelen, Clichy, Fabregas, Song Billong, Diaby, Rosický, van Persie, Arshavin.
Varamenn: Szczesny, Walcott, Ramsey, Silvestre, Eboue, Gibbs, Bendtner.
Lið Blackburn: Robinson, Jacobsen, Givet, Chimbonda, Olsson, Emerton, Andrews, Nzonzi, Diouf, Dunn, Di Santo.
Varamenn: Brown, McCarthy, Pedersen, Kalinic, Hoilett, Salgado, Jones.