Nýr eigandi bjargar Portsmouth

Portsmouth er farið að sjá til sólar á ný.
Portsmouth er farið að sjá til sólar á ný. Reuters

Allt bendir til þess að fjárhagsvandræði enska knattspyrnufélagsins Portsmouth séu að leysast því Sulaiman Al-Fahim, sem keypti félagið fyrr á þessu ári hefur staðfest að sádi-arabíski kaupsýslumaðurinn Ali Al-Faraj muni á næstu dögum kaupa meirihluta í félaginu.

Hermann Hreiðarsson og aðrir leikmenn félagsins fengu ekki laun á tilsettum tíma um mánaðamótin og Peter Storrie, framkvæmdastjóri Portsmouth, leitaði þá til Al-Faraj um lán til að bjarga málunum. Al-Faraj reyndi að kaupa Portsmouth fyrr á þessu ári en lét þá í minni pokann fyrir Al-Fahim.

„Ég reikna með því að það verði frágengið á mánudag eða þriðjudag að Al-Faraj komi inní stjórn félagsins og hann mun þá jafnframt eignast meirihluta í félaginu. Ég mun aðeins halda eftir litlum hlut, en þær 50 milljónir punda sem ég lofaði í þessum mánuði munu koma innan fárra vikna," sagði Al-Fahim við dagblaðið  Observer í dag.

Það er því að lifna yfir mönnum hjá Portsmouth á ný, líka innan vallar, því liðið fékk sín fyrstu stig í úrvalsdeildinni á þessu tímabili í gær þegar það vann Wolves á útivelli, 1:0.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert