Benítez: Erum með í baráttunni

Fernando Torres var ekki á skotskónum í gær og hér …
Fernando Torres var ekki á skotskónum í gær og hér fær hann óblíðar móttökur hjá stuðningsmönnum Chelsea. Reuters

Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool er hvergi banginn þrátt fyrir ósigurinn gegn Chelsea í gær og segir að lið sitt verði áfram með í baráttunni um enska meistaratitilinn. Liverpool hefur tapað þrisvar í fyrstu átta leikjunum en tapaði aðeins tveimur leikjum í deildinni allt síðasta tímabil.

„Það er of snemmt að afskrifa okkur. Þetta er löng keppni og við verðum að halda okkur striki. Við spilum góðan fótbolta og sköpum okkur færi, gerum allt sem þarf að gera. En þegar menn fá færin verða þeir að skora mörk. Varnarleikurinn var mun betri en gegn Fiorentina en við gerðum ein eða tvenn mistök og var refsað fyrir þau. Við spiluðum vel gegn góðu liði sem er með góða leikmenn og nýtir sér öll mistök mótherjanna," sagði Benítez við BBC.

„Við eigum eftir að sjá toppliðin tapa fleiri stigum, gegn hvaða móterjum sem er. Það er gott fyrir deildina og þessa keppni og þýðir að þó við höfum tapað þremur leikjum getum við ekki velt okkur uppúr því. Í fyrra gerðum við fullt af jafnteflum og töpuðum bara tveimur leikjum. Núna vinnum við fleiri leiki, töpum kannski einum og einum, en það skilar okkur fleiri stigum," sagði Spánverjinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert