Markvörðurinn Ben Foster er meiddur á brjóstkassa og var af þeim sökum ekki valinn í enska landsliðshópinn í knattspyrnu í gærkvöld, að því er félag hans, Manchester United, gaf út í dag.
Það vakti athygli að Foster var ekki valinn í hópinn fyrir leikina gegn Úkraínu og Hvíta-Rússlandi í undankeppni HM og engin ástæða var gefin fyrir því að hann var ekki í hópnum og David James kallaður inn í staðinn.
Foster varð fyrir meiðslunum í leiknum við Sunderland í fyrradag en hann var gagnrýndur fyrir frammistöðu sína þar, sérstaklega fyrir að ráða ekki við Kenwyne Jones sem skoraði með skalla eftir fyrirgjöf þrátt fyrir úthlaup Fosters.
Markvörðurinn á síðan eftir að fá harða samkeppni um stöðuna í liði Manchester United því hinn reyndi Edwin van der Sar er að ná sér af meiðslum og reiknað er með að hann verði leikfær eftir landsleikjahléið.