Ali Al Faraj, kaupsýslumaður frá Sádi-Arabíu, hefur keypt 90 prósenta hlut í enska knattspyrnufélaginu Portsmouth, sem Hermann Hreiðarsson leikur með.
Portsmouth hefur verið í miklum fjárhagsþrengingum undanfarna mánuði eftir að nýr eigandi félagsins, Sulaiman Al Fahim, gat ekki staðið við hinar ýmsu skuldbindingar, en aðeins sex vikur eru síðan hann gekk formlega frá kaupum á félaginu. Hann á áfram 10 prósenta hlut.
„Yfirtakan mun tryggja framtíð Portsmouth og færa félaginu fjárhagslegan stöðugleika. Gengið hefur verið frá samningum um losun fjármuna sem notaðir verða til að greiða laun leikmanna og stjórnarmanna," segir í yfirlýsingu frá Portsmouth en félagið gat ekki greitt laun á tilsettum tíma um mánaðamótin.
Á vef Portsmouth kemur fram að Al Faraj er fertugur að aldri, farsæll fjárfestir sem hefur aðsetur í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu. Sagt er að hann hafi staðist próf ensku úrvalsdeildarinnar um hæfni til að eiga enskt félag.