Enska knattspyrnufélagið Portsmouth hefur staðfest að leikmenn liðsins og stjórnarmenn hafi fengið launagreiðslur sínar fyrir septembermánuð, í kjölfarið á kaupum Ali Al-Faraj frá Sádi-Arabíu á 90 prósenta hlut í félaginu. Peter Storrie, framkvæmdastjóri Portsmouth, segir að félagið muni verða stórtækt á leikmannamarkaðnum í janúar.
Launagreiðslur bárust ekki leikmönnum og stjórnarmönnum félagsins í októberbyrjun vegna vandræða hjá nýjum eiganda, Suleiman Al-Fahim. Storrie staðfesti þá að félagið hefði rambað á barmi gjaldþrots.
„Ali Al-Faraj ætlar að styrkja stöðu félagsins. Hann vill byggja nýjan leikvang og æfingasvæði, og vissulega þarf hann að byrja á því að slökkva nokkra elda á fyrstu vikunum. Hann mun skoða liðið vel og styrkja það, og ég er viss um að hann gerir það í félagaskiptaglugganum í janúar," sagði Storrie við blaðið The News.
Portsmouth situr á botni úrvalsdeildarinnar en hagur þess vænkaðist þó verulega á laugardaginn. Þá fékk það sín fyrstu stig með því að vinna Wolves á útivelli, 1:0, en hafði áður tapað fyrstu sjö leikjunum í deildinni í haust. Hermann Hreiðarsson hefur misst af fyrstu átta leikjum liðsins á tímabilinu vegna meiðsla.