Craig Bellamy, hinn litríki leikmaður Manchester City og landsliðsfyrirliði Walesbúa í knattspyrnu, hefur heldur betur kynt upp í finnska landsliðinu fyrir viðureign þjóðanna í undankeppni HM á morgun. Stuart Baxter, þjálfari Finna, segir að auðvelt verði að nota ummæli Bellamys til að blása sínum mönnum baráttuanda í brjóst.
Bellamy hafði allt á hornum sér eftir fyrri leik þjóðanna í Cardiff í mars en þá unnu Finnar góðan útisigur, 2:0, og bundu endi á vonir Walesbúa um að komast í úrslitakeppni HM í Suður-Afríku.
Bellamy sagði þá að þetta hefði verið viðureign tveggja lélegra landsliða sem hvorugt ætti minnstu möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Um Jonathan Johansson, fyrrum leikmann Charlton, sem skoraði fyrra mark Finna sagði Bellamy: „Ég tel að hann sé ekki nógu góður leikmaður til að skora mörk."
„Við þurfum ekki að gera mikið til að menn mæti rétt stemmdir til leiks með þessi ummæli í farteskinu. Það eru nokkrir í liðinu sem geta ekki beðið eftir því að komast útá völlinn," sgði Baxter við BBC.