José "Pepe" Reina, markvörður Liverpool, hefur viðurkennt að strandboltinn frægi hafi ruglað hann í ríminu þegar Darren Bent skoraði markið um deilda fyrir Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn.
Reina kveðst hafa misst sjónar á rétta boltanum á örlagaríku augnabliki. „Þetta var þvílík óheppni. Ég missti sjónar á keppnisboltanum og fylgdi strandboltanum með augunum. Þegar skotið reið af, ruglaði þetta mig og ég fór ósjálfrátt af stað á eftir rauða boltanum, vegna þess að hann var nær mér, og hinn fór framhjá mér. Þetta gerðist allt mjög hratt," sagði spænski markvörðurinn.
„Ég hef aldrei áður upplifað svona nokkuð og vissi ekki hvernig ég ætti að bregðast við. Enginn okkar þekkti reglurnar, annars hefðum við brugðist öðruvísi við. En það gerir mistök dómarans enn alvarlegri," sagði Reina.