Ítalinn Alberto Aquilani lék í kvöld sinn fyrsta leik með Liverpool þegar hann lék síðustu 15 mínútur með varaliði félagsins í sigurleik gegn Sunderland, 2:0.
Liverpool keypti Aquilani frá Roma í sumar fyrir 20 milljónir punda en ítalski miðjumaðurinn var þá nýbúinn að gangast undir aðgerð á hné og er nú fyrst að ná sér af meiðslunum.
Dani Pacheco og Robbie Threlfall gerðu mörkin fyrir Liverpool en Aquilani þótti sýna lipra takta þann tíma sem hann var inná og endurkoma hans eru bestu fréttir sem stuðningsmenn Liverpool fá í langan tíma en liðið hefur tapað fjórum leikjum í röð. Guðlaugur Victor Pálsson lék ekki með Liverpool.