Andrei Arshavin, rússneski knattspyrnumaðurinn hjá Arsenal, segir að stöðu ensku úrvalsdeildarinnar sem þeirrar sterkustu í heimi verði fljótlega ógnað. Bestu leikmenn deildarinnar muni flýja hana vegna skattanna í Bretlandi og aðrir forðist að fara til Englands af sömu sökum.
Þetta kemur fram í viðtali í Daily Telegraph í dag og þar segir Arshavin að Spánn hafi meira aðdráttarafl vegna lágra skatta, sem þar séu 27 prósent á móti 50 prósentum í Bretlandi.
Arshavin segir að nú þegar hafi Cristiano Ronaldo farið frá Manchester United til Real Madrid og menn eins og Karim Benzema og Kaká hafi valið Spán frekar en England. Sterk staða evrunnar gagnvart pundinu hafi haft sitt að segja í því.