Arsenal tapaði dýrmætum stigum

Arsenal menn fagna marki Van Persie.
Arsenal menn fagna marki Van Persie. Reuters

Arsenal tapaði tveimur dýrmætum stigum í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld þegar liðið gerði 2:2 jafntefli gegn West Ham á Upton Park eftir að hafa komist í 2:0.

 Það stefndi í öruggan sigur gestanna því eftir fyrri hálfleikinn var staðan, 0:2. Robin van Persie og William Gallas gerðu mörkin. Carlton Cole minnkaði muninn fyrir West Ham á 74. mínútu og sex mínútum síðar jafnaði  Alessandro Diamanti metin úr vítaspyrnu sem dæmd var þegar Cole féll við í vítateignum.

Scott Parker miðjumaðurinn sterki var rekinn af velli á 84. mínútu og á lokamínútum leiksins munaði minnstu að Arsenal tryggði sér sigur en Robert Green kom sínum mönnum til bjargar þegar hann varði með fætinum skot frá Van Persie af stuttu færi.

Arsenal hefur 19 stig eins og Tottenham í 3.-4. sæti en West Ham, sem hefur aðeins innbyrt einn sigur á tímabilinu, hefur 6 stig í næst neðsta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert