Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United var særður eftir ósigur sinna manna gegn Liverpool í dag. Hann sagði eftir leikinn að sigur Liverpool hefði verið sanngjarn. United tapaði þar með sínum fyrsta leik frá því 19.ágúst þegar liðið beið lægri hlut fyrir nýliðum Burnley.
,,Frammistaða liðsins olli mér miklum vonbrigðum. Liverpool var betra liðið og vann sanngjarnan sigur. Það féll ekkert með okkur í leiknum en staðreyndin er sú að við vorum ekki nógu góðir,“ sagði Sir Alex í viðtali við Manchester United sjónvarpið.
Ferguson var ekki ánægður með Andre Mariner dómara en hann sagði að Jamie Carragher hefði átt að fá rautt spjald þegar hann braut á Michael Owen sem var að sleppa einn í gegn.
,,Ef Carragher hefði farið útaf þá hefði Liverpool misst sinn besta mann, fyrirliða sinn. Það hefði getað breytt stöðunni og við hefðum eflaust gert harða hríð að marki Liverpool. Ég er líka á því að Carrick hefði átt að fá víti þegar Carragher braut á honum í fyrri hálfleik.
,,Ég ætla samt ekkert að taka frá Liverpool því það var betra liðið. Hluti af áskorun okkar liðs er hvernig við svörum svona vonbrigðum. Við töpuðum 4:1 á móti Liverpool á heimavelli á síðustu leiktíð sem voru hræðileg úrslit. En leikmenn þjöppuðu sér saman og okkur tókst að vinna deildina,“ sagði Ferguson.