16 ára gamall stuðningsmaður Liverpool hefur gefið sig fram og hefur beðist afsökunar á að hafa kastað strandboltanum fræga inn á völlinn í viðureign Sunderland og Liverpool um síðustu helgi. Uppátæki unglingspiltsins reyndist hans mönnum dýrkeypt því eftir skot Darren Bents hafði boltinn viðkomu í strandboltanum, breytti um stefnu og fór í netið og þetta reyndist sigurmark leiksins.
Callum Campbell, sá sem kastaði strandboltanum inn á markteig Liverpool, segir í viðtali við breska blaðið Sunday Mirror að honum hafi borist líflátshótanir og frá því atvikið átti sér stað segist hann hafa haldið sig að mestu innan dyra.
,,Þetta var ég,“ segir Campbell í viðtali við Sunday Mirror. ,,Ég er sá sem gerði þetta og var náð á myndavélina. Mér þykir þetta afar leitt og þetta er versta martröð sem ég hef upplifað. Þegar ég kom heim eftir leikinn fór út í garð og kastaði upp. Mér leið svo illa og þetta var áður en líflátshótanirnar fóru að berast á netið,“ segir Campbell.
,,Ég horfði á þetta aftur og aftur og ég skil ekki enn hvernig þetta gat gerst. En móðir sagði mér að þetta væri ekki mér að kenna og ég verð bara að trúa því. Dómarinn hefði aldrei átt að láta markið standa. Ég vona bara innilega að alvöru stuðningsmenn Liverpool skilji þetta og fyrirgefi mér. Þetta átti bara að vera grín en ég gæti ég snúið klukkunni til baka og gert þetta öðruvísi þá hefði ég hent boltanum til áhorfenda í stað þess að kasta honum út á völlinn.“