Íslendingaliðið Reading er enn í vandræðum í ensku 1. deildinni í knattspyrnu. Í kvöld tapaði liðið á heimavelli gegn Leicester, 0:1, og hefur aðeins unnið tvo af fyrstu 14 leikjum sínum á tímabilinu.
Martyn Waghorn skoraði sigurmark Leicester á lokamínútu fyrri hálfleiks og þar við sat þrátt fyrir þunga sókn Reading, sérstaklega á lokakafla leiksins.
Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Reading en var skipt af velli á 65. mínútu. Brynjar Björn Gunnarsson sat á varamannabekknum allan tímann en fyrirliðinn Ívar Ingimarsson lék ekki með þar sem hann tók út leikbann.
Reading hefur ekki náð að vinna leik á heimavelli síðan í janúar og er nú í þriðja neðsta sæti 1. deildar. Nýliðar Leicester eru hinsvegar komnir í fimmta sæti deildarinnar eftir þennan góða útisigur.