Manchester United og Portsmouth hafa tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu með því að sigra Barnsley og Stoke. Gary Neville hjá Man.Utd var rekinn af velli í Barnsley en það kom ekki að sök. Framlengja þarf viðureign Sunderland og Aston Villa.
Danny Welbek kom United yfir strax á 6. mínútu í Barnsley og Michael Owen bætti við marki á 59. mínútu. Rétt á eftir fékk Gary Neville rauða spjaldið fyrir brot en 10 leikmenn United héldu fengnum hlut. Emil Hallfreðsson lék allan leikinn með Barnsley.
Portsmouth vann auðveldan sigur á Stoke, 4:0. Frederic Piquionne skoraði tvö marka Portsmouth og þeir Danny Webber og Nwankwo Kanu gerðu eitt mark hvor. Hermann Hreiðarsson var ekki í leikmannahópi Portsmouth en hann er enn að jafna sig af meiðslum.
Kenwyne Jones fékk gullið tækifæri til að tryggja Sunderland sigur á Aston Villa. Hann tók vítaspyrnu á 84. mínútu en Bradley Guzan í marki Villa varði frá honum. Framlenging er að hefjast.
Skammt er eftir af tveimur öðrum leikjum. Blackburn er 5:2 yfir gegn Peterborough og Tottenham er með 2:0 forystu gegn Everton.