Lundúnaliðin Arsenal og Tottenham áttust við í miklum nágrannaslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Arsenal vann öruggan 3:0 sigur og komst því upp að hlið Manchester United í 2. sæti deildarinnar. Tottenham er eftir sem áður í 4. sæti en það gæti breyst síðar í dag. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Robin van Persie gerði tvö marka Arsenal og Cesc Fabregas eitt en það var sérlega glæsilegt.
1:0 43. mín. Robin van Persie kom Arsenal yfir með skoti rétt utan nærstangarinnar eftir fyrirgjöf Bacary Sagna frá hægri.
2:0 44. mín. Cesc Fabregas bætti öðru marki við strax eftir að Tottenham hafði tekið miðju. Hann náði boltanum af Wilson Palacios rétt utan miðjuhringsins og lék frábærlega í gegnum vörn Tottenham áður en hann skoraði með góðu skoti. Frábært einstaklingsframtak og sannarlega eitt af laglegri mörkum leiktíðarinnar.
3:0 60. mín. Robin van Persie bætti við sínu öðru marki og kom Arsenal í 3:0 með athyglisverðu marki. Bacary Sagna fékk boltann á hægri kantinum nærri endamörkum en hægði á sér þegar hann sá aðstoðardómarann veifa flaggi sínu eftir brot á leikmanni Arsenal. Mark Clattenburg dómari kaus hins vegar að láta leikinn halda áfram og þegar Sagna áttaði sig á því sendi hann boltann fyrir markið þar sem van Persie skoraði þó Ledley King væri nálægt því að ná til boltans.