Benítez: Verð að hlífa Torres

Benítez var ekki ánægður með gang mála á Craven Cottage …
Benítez var ekki ánægður með gang mála á Craven Cottage í dag. Reuters

Rafa Benítez stjóri Liverpool segir spænska framherjann Fernando Torres ekki hafa verið í standi til að klára heilan leik í dag þegar Liverpool tapaði 3:1 fyrir Fulham í ensku úrvalsdeildinni en athygli vakti þegar Torres var skipt af leikvelli í stöðunni 1:1. Hann telur að rauðu spjöldunum tveimur sem Liverpool fékk verði áfrýjað.

„Við ákváðum að nota Fernando gegn United um síðustu helgi sem var erfið ákvörðun því þá var hann ekki 100% klár í slaginn. Eftir þann leik þurfti hann fjóra leiki til að jafna sig en hann er enn ekki í sínu best ástandi svo við urðum að velja á milli þess að hafa hann í byrjunarliðinu og skipta honum af leikvelli á þessum tíma eða að nota hann sem varamann. Við ákváðum að byrja með hann inná en ég verð að hlífa leikmanninum,“  sagði Benítez.

Svisslendingurinn Philipp Degen fékk að líta rauða spjaldið í leiknum og þótti það afar strangur dómur og skömmu síðar var Jamie Carragher einnig sendur í sturtu fyrir að brjóta á Bobby Zamora sem var að sleppa í gegnum vörn Liverpool. Benítez segir félagið ætla að áfrýja þessum spjöldum.

„Mér fannst brot Degens verðskulda gult spjald og í seinna atvikinu fannst mér augljóst að Carra sparkaði í boltann en ekki í Zamora. Ég horfði á endursýninguna og þetta er alveg ljóst. Við munum reyna að áfrýja spjöldunum,“ sagði Benítez.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert