Liverpool tapaði í dag sjötta leik sínum í síðustu sjö leikjum þegar liðið lá gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, 3:1. Tveir leikmenn Liverpool fengu rautt spjald í leiknum. Chelsea styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar með 4:0 sigri á Bolton en sjö leikjum er nú nýlokið. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Kl. 17:30 hefst svo viðureign Manchester United og Blackburn á Old Trafford.
Grétar Rafn Steinsson var á varamannabekk Bolton allan leikinn gegn Chelsea og Jóhannes Karl Guðjónsson var á bekknum hjá Burnley sem vann Hull.
Bolton - Chelsea, 0:4, leik lokið
Bein lýsing. Jlloyd Samuel braut á Didier Drogba innan vítateigs á 45. mínútu og fékk að launum rautt spjald. Frank Lampard skoraði úr vítaspyrnunni. Portúgalinn Deco bætti svo við öðru marki á 61. mínútu eftir sendingu frá Nicolas Anelka. Branislav Ivanovic skoraði þriðja mark Chelsea á 82. mínútu eftir sendingu frá Ricardo Carvalho en óljóst er hvort markið verður frekar skráð sem sjálfsmark Zat Knight. Drogba innsiglaði svo sigurinn á 90. mínútu.
Burnley - Hull, 2:0, leik lokið
Bein lýsing. Tyrone Mears krækti í vítaspyrnu fyrir Burnley og úr henni skoraði Graham Alexander á 20. mínútu. Geovanni, leikmaður Hull, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 70. mínútu og Alexander bætti svo við öðru marki á 77. mínútu með góðu skoti.
Everton - Aston Villa, 1:1, leik lokið
Bein lýsing. Tim Cahill gaf boltann fyrir mark Aston Villa á Yakubu sem skallaði boltann áfram á Rússann Diniyar Bilyaletdinov sem skoraði á 45. mínútu. Strax eftir leikhlé jafnaði John Carew metin hins vegar fyrir Villa sem fylgdi vel á eftir skoti Gabriels Agbonlahor. Bilyaletdinov fékk að líta rauða spjaldið á 87. mínútu líkt og Carlos Cuellar leikmaður Aston Villa á 90. mínútu.
Fulham - Liverpool, 3:1, leik lokið
Bein lýsing. Damien Duff átti mislukkað skot frá vinstri og boltinn barst til Bobby Zamora sem skoraði auðveldlega í mark Liverpool. Liverpool sótti mun meira í fyrri hálfleiknum og það bar loks árangur á 43. mínútu þegar boltinn féll óvænt fyrir Fernando Torres sem skoraði laglega með viðstöðulausu skoti rétt utan vítateigsins.
Á 74. mínútu gaf Paul Konchesky boltann fyrir frá vinstri á Zoltan Gera sem skallaði boltann á Erik Nevland sem skoraði af stuttu færi, en tveir síðastnefndu leikmennirnir komu inná sem varamenn í leikhléi. Svisslendingurinn Philipp Degen var svo rekinn af velli á 80. mínútu fyrir að tækla Clint Dempsey en sú tækling virtist einungis verðskulda gult spjald. Liverpool-menn voru svo orðnir níu inni á vellinum á 82. mínútu eftir að Jamie Carragher fékk einnig rautt spjald fyrir að brjóta á Bobby Zamora sem var sloppinn einn í gegnum vörn Liverpool. Dempsey innsiglaði svo sigur Fulham með marki á 87. mínútu eftir laglega sókn og átti Nevland lokasendinguna.
Portsmouth - Wigan, 4:0, leik lokið
Bein lýsing. Michael Brown átti góða stungusendingu á Aruna Dindane sem kom Portsmouth yfir á 35. mínútu. Frederic Piquionne bætti við öðru marki á 45. mínútu. Dindane bætti við öðru marki sínu og þriðja marki Portsmouth á 65. mínútu. Dindane fullkomnaði svo þrennuna með marki úr vítaspyrnu á 90. mínútu en Nwanko Kanu fiskaði hana.
Stoke - Wolves, 2:2, leik lokið
Bein lýsing. Eftir fyrirgjöf Matthew Etherington á James Beattie á 17. mínútu kom George Elokobi boltanum í eigið mark og staðan því 1:0 Stoke í vil. Etherington skoraði svo sjálfur á 44. mínútu með góðu skoti. Wolves náði að minnka muninn á 47. mínútu með marki Jody Craddock eftir sendingu frá Christophe Berra. Craddock jafnaði svo metin á 64. mínútu.
Sunderland - West Ham, 2:2, leik lokið
Bein lýsing. Jack Collison slapp í gegnum vörn Sunderland og sendi svo boltann fyrir markið á Guillermo Franco sem skoraði auðveldlega og kom West Ham yfir á 30. mínútu. Collison átti svo aðra stoðsendingu þegar hann kom boltanum á Carlton Cole sem skoraði á 36. mínútu. Andy Reid minnkaði muninn fyrir Sunderland á 39. mínútu með marki úr aukaspyrnu. Kenwyne Jones fékk rautt spjald á 45. mínútu en Kieran Richardson jafnaði metin fyrir 10 Sunderland-menn á 76. mínútu eftir sendingu frá Darren Bent. Radoslav Kovac hjá West Ham fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 87. mínútu.