Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segir að lið sitt sé tilbúið til að slást um enska meistaratitilinn í vetur. Arsenal stendur ágætlega að vígi eftir 3:0 sigur á Tottenham í gær, 3:0, er þremur stigum á eftir Manchester United, sem er í öðru sætinu, en á leik til góða.
„Höfum við það sem til þarf? Já, ég tel það. Ég hef verið á þeirri skoðun síðan tímabilið hófst og það hefur ekki breyst. Við ætlum okkur að sýna stöðugleika og klókindi, sem er ekki einfalt. Ég tel að nú sé tækifærið fyrir hendi og hugarfarið hjá okkur mun ráða úrslitum. Þetta ræðst á því hvernig við spilum í lengri tíma," sagði Wenger við fréttamenn.