Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Chelsea segir að lykillinn að því að leggja Englandsmeistara Manchester United að velli sé að gefa leikmönnum United ekki nokkurn einasta frið til að spila eins og þeir vilja.
Ancelotti segir að leikmenn sínir geti dregið lærdóm af leik Liverpool-liðsins gegn meisturunum fyrir tveimur vikum en þar hafði Liverpool vinninginn á miðsvæðinu sem skilaði því sigri.
,,Liverpool spilaði frábæran leik á móti United. Liðið var virkilega sterkt og ástæðan fyrir því að það vann var að leikmenn United voru settir undir mikla pressu alls staðar á vellinum. Liverpool gaf United ekki tækifæri á að spila eins og þeir vilja spila. Þetta var góð lexía fyrir okkur því Manchester United getur lent í miklum vandræðum þegar miðjumenn liðsins eru pressaðir stíft,“ segir Ancelotti.
Mikil spenna er fyrir rimmu toppliðanna tveggja sem mætast á Stamford Bridge á morgun en Chelsea er með tveimur stigum meira en meistararnir.
,,Ferguson hefur unnið frábært starf fyrir sitt félag. Fyrir þjálfara að vera svona lengi hjá sama félagi er mjög erfitt, ekki bara á Englandi heldur alls staðar. Á Ítalíu væri þetta ómögulegt,“ segir Ancelotti sem ber mikla virðingu fyrir Ferguson.