Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo segir að enski landsliðsmaðurinn Ashley Cole, leikmaður Chelsea, sé erfiðasti andstæðingurinn sem hann hafi þurft að glíma við.
Oftar en ekki lentu þeir í rimmu í viðureign Chelsea og Manchester United en nú er Ronaldo sem kunnugt er farinn frá Englandsmeisturunum og leikur með stjörnum prýddu liði Real Madrid.
Þegar blaðamaður Sport-Express innti Ronaldo eftir því hver væri erfiðasti andstæðingurinn stóð ekki á svari hjá Ronaldo; ,,Ashley Cole. Hann er afar harður í horn að taka, mjög traustur leikmaður,“ sagði Ronaldo en Cole var útnefndur besti leikmaður Chelsea af stuðningsmönnum félagsins eftir síðustu leiktíð.
Um samanburðinn á Englandi og Spáni segir Ronaldo:
,,Á Englandi eru leikmenn stöðugt að tækla. Allir reyna að sparka í þig. Ef þú ert í góðu líkamlegu formi og nægilega fljótur þá getur þú vikið þér undan. Ég er mjög hrifinn af ensku deildinni. Hún og spænska deildin eru þær bestu í heim. Það er meiri barátta og læti á Engandi og því meira um meiðsli,“ segir Ronaldo, sem er á sjúkralistanum og hefur verið það síðustu vikurnar eftir að hafa meiðst í leik með Real Madrid í Meistaradeildinni í september.