Nýjar reglur ensku úrvalsdeildarinnar um samskipti við fjölmiðla gera það væntanlega að verkum að Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United neyðist til að veita íþróttafréttamönnum BBC viðtöl eftir leiki, og einnig íþróttafréttamönnum dagblaðanna. Hann hefur neitað að ræða við BBC í fimm ár, og einnig hundsað dagblöðin að mestu.
Árið 2004 birti BBC heimildarmynd um spillingu í kringum umboðsmenn í fótboltanum og þar var fullyrt að Jason Ferguson, sonur Alex, hefði nýtt sér frægð föður síns til að styrkja stöðu sína sem umboðsmaður. Jason var aldrei fundinn sekur um neitt ólöglegt og faðir hans sór þess heit að ræða aldrei við BBC fremar og lýsti stofnuninni sem "ótrúlega hrokafullri."
Ferguson hefur nánast eingöngu farið í viðtöl hjá sjónvarpsstöð Manchester United, MUTV, eftir leiki liðsins.
Ferguson er ekki sá eini sem hefur forðast að ræða við BBC. Harry Redknapp, stjóri Tottenham, og Sam Allardyce, stjóri Blackburn, hafa líka horn í síðu stöðvarinnar eftir ásakanir í þeirra garð í heimildarmyndum BBC.
Samkvæmt nýju reglunum verða knattspyrnustjórarnir að veita rétthöfum sjónvarpsútsendinga viðtöl eftir leiki í úrvalsdeildinni. Þeir verða líka að koma fram á blaðamannafundum og ræða við íþróttafréttamenn dagblaðanna.