Robin van Persie, sóknarmaður Arsenal og hollenska landsliðsins í knattspyrnu, verður væntanlega frá keppni næstu þrjá mánuðina eða svo. Myndataka í dag leiddi í ljós að hann er með slitið liðband í ökkla en van Persie var borinn af velli í gærkvöld þegar Holland sótti Ítalíu heim í vináttulandsleik í Pescara.
Talsmaður hollenska knattspyrnusambandsins staðfesti við BBC í dag að um rifið liðband væri að ræða. Van Persie fer beint í meðferð hjá þekktum lækni, Niek van Dijk, sem hefur höndlað slæm meiðsli hjá Cristiano Ronaldo, Ruud van Nistelrooy og Michael Owen.
Van Persie hefur skorað 8 mörk fyrir Arsenal í úrvalsdeildinni í haust og jafnframt lagt upp 8 mörk til viðbótar. Hans verður sárt saknað þar næstu vikurnar.