Robin van Persie, hollenski knattspyrnumaðurinn hjá Arsenal, er á leið til Serbíu þar sem hann mun gangast undir óvenjulega meðferð við ökklameiðslunum sem hann varð fyrir um síðustu helgi.
Fyrrum samherjar hans hjá Feyenoord í Hollandi, Danko Lazovic og Orlando Engelaar mæltu með meðferðinni en í henni eru notuð efni úr legköku, fylgjunni sem fylgir með við barnsburð.
„Ég mun fljúga til Balkanskaga og hitta þar kvenkyns lækni sem reyndist Danko Lazovic vel. Hún vill ekki láta mikið uppi um aðferðir sínar en ég veit að hún nuddar mann með efnum úr legköku. Ég ætla að prófa þetta, það getur ekki skaðað, og ef það flýtir fyrir batanum er það besta mál. Ég hef verið í sambandi við sjúkraþjálfarana hjá Arsenal og þeir leyfðu mér að fara," sagði van Persie í samtali við hollenska sjónvarpsstöð.
Reiknað er með að van Persie verði frá keppni til áramóta vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í leik Hollands og Ítalíu á laugardagskvöldið.