Ferguson sýndur sem fyllibytta í Liverpool-mynd

Alex Ferguson og Gary Neville verða eflaust ekki hrifnir af …
Alex Ferguson og Gary Neville verða eflaust ekki hrifnir af nýju myndinni. Reuters

Leikmenn Liverpool, Steven Gerrard og Jamie Carragher, koma fram í nýrri kvikmynd sem fjallar um endurkomu liðsins gegn AC Milan í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2005 og sýnir Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United sem fyllibyttu. Reiknað er með hörðum viðbrögðum frá Ferguson, sem og Gary Neville sem einnig er hæðst að í myndinni.

Myndin ber nafnið "Fifteen Minutes That Shook The World" og verður frumsýnd á mánudaginn kemur en hún er sögð full af svörtum húmor og farið sé frjálslega með staðreyndir. Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, er sagður verða á meðal frumsýningargesta, ásamt þeim Gerrard og Carragher.

Söguþráður myndarinnar er rakinn í The Times í dag. Í úrslitaleiknum fræga í Istanbúl lenti Liverpool 0:3 undir í fyrri hálfleik en jafnaði metin í 3:3 og sigraði síðan í vítaspyrnukeppni.

The Times segir að í einu atriði myndarinnar hringi McTaggart, sem sé eftirmynd Fergusons, í mann sem er í Manchester United treyju númer 2, með nafnið Rat Boy á bakinu, og líkist mjög Gary Neville. Þeir fagna því að Liverpool sé þremur mörkum undir á móti AC Milan.

Síðar í myndinni berast fregnir af því að Liverpool sé búið að jafna metin og þá sést umræddur McTaggart þamba æfur af reiði úr stórri viskýflösku. Á hana eru letruð orðin: "Knattspyrnustjóri mánaðarins, en ekki eins góður og Bob  Paisley." Síðan reynir McTaggart að stinga höfðinu í snöru en það mistekst þegar hann sjálfur sprengir stóra tyggjókúlu á andlitinu á sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert