Írar í sárum eftir ólöglegt mark Frakka

William Gallas skorar markið umdeilda sem tryggði Frökkum farseðilinn á …
William Gallas skorar markið umdeilda sem tryggði Frökkum farseðilinn á HM. Reuters

Írar eru í sárum eftir úrslitin gegn Frökkum í leik þjóðanna um sæti á HM en úrslitin réðust í framlengingu þegar Frakkar jöfnuðu metin með kolólöglegu marki. Thierry Henry mokaði þá knettinum fyrir sig með hendinni áður en hann kom honum á William Gallas sem skoraði með skalla af stuttu færi.

,,Ég er ekki bara vonsvikinn heldur leiður. Ég er leiður vegna þess að dómarinn hafði tíma til að ræða við línuvörðinn. Ég er sannfærður að hann hefði staðfest að um hendi var að ræða,“ sagði Giovanni Trappatoni landsliðsþjálfari Íra eftir leikinn.

Robbie Keane skaut föstum skotum eftir leikinn en hann sagði að nú væru forsetar FIFA og UEFA himinlifandi; ,,Þeir eru enn að klappa. Michel Platini situr uppi í stúku og er að ræða við Sepp Blatter. Þeir hafa örugglega skipst á textaskilaboðum, himinlifandi eftir úrslitin,“ sagði Keane, sem skoraði mark Íra í leiknum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert