Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, óttast að hann verði sem áhrifalaus áhorfendi á leik liðsins gegn Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni á Fratton Park á morgun.
Ferguson tekur út leikbann og þarf að sitja í áhorfendastúkunni og er smeykur um að það heyrist ekki mannsins mál svo hann geti með engu móti komið skilaboðum áleiðis til sinna manna á varamannabekknum.
Ferguson verður í símasambandi við aðstoðarmann sinn, Mike Phelan, en sagði við vef Manchester United að hann efaðist um að það myndi heyrast nokkuð í sér í látunum sem ávallt eru á Fratton Park.
„Ég er með tengingarnar í lagi en vandamálið er hve mikill hávaði er á vellinum. Þettta er einn af þessum gömlu völlum og stúka stjórnarmanna er nálægt endamörkunum þar sem hávaðinn er mestur. Þar eru trommurnar og hvað það er nú allt saman sem þeir nota. En þetta er góður völlur, í raun stórkostlegur fótboltavöllur," sagði Ferguson.
Hann er kominn í tveggja leikja bann og verður líka í stúkunni á þriðjudaginn þegar Manchester United tekur á móti Tottenham. Þá verður hinsvegar leikið á Old Trafford þar sem hægara verður um vik fyrir Ferguson að fjarstýra sínu liði.