Wayne Rooney skoraði þrennu þegar Englandsmeistarar Manchester United unnu Hermann Hreiðarsson og félaga í Portsmouth 4:1 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þrjár vítaspyrnur voru dæmdar í leiknum og skoraði Rooney úr tveimur þeirra. Fimm leikir til viðbótar fóru fram og var fylgst með gangi mála hér á mbl.is.
Einn leikur til viðbótar er í dag en það er viðureign Aston Villa og Tottenham í Birmingham.
Portsmouth - Manchester United, 1:4
Eftir góða sókn United fékk Wayne Rooney boltann innan teigs þar sem Michael Brown braut á honum og vítaspyrna dæmd. Rooney tók spyrnuna sjálfur og kom meisturunum yfir á 25. mínútu en markið kom nokkuð gegn gangi leiksins. Portsmouth jafnaði hins vegar metin strax á 33. mínútu með marki frá Kevin-Prince Boateng úr annarri vítaspyrnu en erfitt var að sjá hvers vegna hún var dæmd.
Seinni hálfleikur var rúmlega tveggja mínútna gamall þegar Wayne Rooney kom United yfir á nýjan leik eftir sendingu inn fyrir vörn Portsmouth frá Ryan Giggs. Rooney fullkomnaði svo þrennuna með marki úr þriðju vítaspyrnu leiksins á 54. mínútu en hana fiskaði Giggs. Giggs skoraði svo sjálfur fjórða markið úr aukaspyrnu á 87. mínútu og kom United í 4:1, en þetta var 100. mark Giggs í úrvalsdeildinni.
Wigan - Sunderland, 1:0
Hugo Rodallega skoraði eina mark leiksins eftir sendingu frá Paul Scharner á 77. mínútu.
West Ham - Burnley, 5:3
Jack Collison kom West Ham yfir á 18. mínútu eftir stungusendingu frá Scott Parker. Junior Stanislas bætti við öðru marki á 33. mínútu og kom West Ham í 2:0 eftir stungusendingu frá Guillermo Franco. West Ham fékk svo vítaspyrnu á 43. mínútu eftir að brotið hafði verið á Jonathan Spector. Carlton Cole skoraði úr spyrnunni.
Á 51. mínútu kom svo fjórða mark heimamanna og í þetta skiptið var það Franco sem skoraði eftir sendingu frá Stanislas. Luis Jimenez bætti við fimmta markinu úr vítaspyrnu á 64. mínútu. Steven Fletcher náði að klóra í bakkann fyrir Burnley á 67. mínútu eftir sendingu frá Chris Eagles. Fletcher bætti við öðru marki á 74. mínútu og aftur átti Eagles sendinguna en það var Eagles sem skorað þriðja mark Burnley í lok uppbótartíma.
Manchester City - Hull, 1:1
Shaun Wright-Phillips skoraði með skoti af löngu færi rétt áður en flautað var til leikhlés og kom heimamönnum í 1:0. Jimmy Bullard jafnaði metin fyrir Hull úr vítaspyrnu á 82. mínútu.
Fulham - Bolton, 1:1
Grétar Rafn Steinsson og félagar í Bolton komust í 1:0 á 34. mínútu með marki Ivan Klasnic eftir sendingu frá Gary Cahill. Damien Duff jafnaði metin fyrir heimamenn á 76. mínútu með hægrifótarskoti, merkilegt nokk, eftir sendingu frá Erik Nevland.
Blackburn - Stoke, 0:0