Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum ánægður eftir sigurinn á Everton, 2:0, í grannaslagnum í ensku úrvalsdeildinni og kvaðst vongóður um að hann yrði vendipunktur hjá liðinu á tímabilinu.
Joseph Yobo gerði sjálfsmark eftir skot frá Javier Mascherano og Dirk Kuyt innsiglaði sigurinn á Goodison Park.
„Við unnum Debrecen í vikunni og það var mikilvægt að halda áfram á sigurbraut. Grannaslagir eru alltaf mjög erfiðir, en um leið var þetta geysilega þýðingarmikill sigur sem getur snúið blaðinu við hjá okkur," sagði Benítez við BBC.
„Þetta var erfiður leikur frá byrjun. Everton er mjög beinskeytt lið og hættulegt í uppstilltum atriðum. Þeir eru geysilega sterkir í loftinu og því var erfitt að ráða við þá, en við sýndum mikinn styrk og beittum skyndisóknum, sem stundum voru góðar og stundum ekki. Þeir sóttu meira en við sýndum karakter, skoruðum tvö mörk og unnum, og höfðum betri stjórn á leiknum undir lokin," sagði Benítez.
David Moyes var ánægður með framlag sinna manna en ekki úrslitin. „Mér fannst við ekki koma sigraðir af velli. Mínir menn lögðu geysilega hart að sér og hefðu verðskuldað betri úrslit. Leikmenn Liverpool höfðu ekki oft komist inná okkar vallarhelming þegar þeir skoruðu þetta slysalega mark, en mér fannst mitt lið bregðast vel við markinu. Að stórum hluta héldum við Liverpool niðri og það voru vonbrigði að fá ekkert útúr leiknum," sagði Moyes við BBC.