Brown: Frábært fagn hjá Bullard

Jimmy Bullard heldur ræðu yfir félögum sínum eftir að hann …
Jimmy Bullard heldur ræðu yfir félögum sínum eftir að hann jafnaði gegn City. Reuters

Phil Brown, knattspyrnustjóri Hull City, kvaðst hafa hlegið svo mikið eftir leikinn gegn Manchester City að hann hefði þurft að sleppa ræðuhöldum yfir sínum mönnum. Ástæðan var "fagnið" sem Jimmy Bullard skipulagði með leikmönnum liðsins eftir að hann jafnaði úr vítaspyrnu, 1:1, skömmu fyrir leikslok.

Bullard hermdi þá eftir Brown frá því í útileiknum gegn Manchester City á síðasta tímabili. Hull steinlá þá, 1:5, og Brown hleypti leikmönnum sínum ekki inní búningsklefann í hálfleik, heldur hélt skammarræðu yfir þeim sitjandi á vellinum frammi fyrir stuðningsmönnum liðsins.

Eftir að Bullard jafnaði, settust samherjar hans á völlinn og Bullard hélt "ræðu" yfir þeim, en á öllu léttari nótum en í fyrravetur.

„Þetta var stórkostlegt fagn. Bestu brandararnir þurfa að vera rétt tímasettir og þetta var hrein snilld. Ég gat ekki haldið ræðuna yfir liðinu eftir leikinn, því ég var enn að drepast úr hlátri. Það var bara hægt að gera þetta á þessum velli, og fyrir framan stuðningsmenn Hull. Ég hafði ekki hugmynd um hvað var í gangi, ég var í óða önn að breyta leikskipulagi okkar yfir í fimm manna miðju eftir að við jöfnuðum. En myndatökumaðurinn minn sýndi mér fagnið í fartölvunni sinni þegar við komum inní klefann," sagði Brown við BBC.

Bullard sagði að leikmenn Hull hefðu ákveðið kvöldið fyrir leik að hafa þetta fagn á takteinum. „Við ákváðum að sá sem myndi skora jöfnunarmark eða sigurmark yrði að stjórna fagninu," sagði Bullard.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert