City með Mourinho og Torres í sigtinu?

José Mourinho langar aftur til Englands.
José Mourinho langar aftur til Englands. Reuters

Enskir fjölmiðlar fullyrða í dag að Manchester City hafi augastað á José Mourinho sem nýjum knattspyrnustjóra félagsins. Mark Hughes sé orðinn afar valtur í sessi eftir sjöunda jafntefli liðsins í röð í úrvalsdeildinni. Þá ætli félagið að gera Liverpool risatilboð í Fernando Torres.

City gerði aðeins jafntefli við Hull á heimavelli í gær, 1:1, og hefur þar með tapað 14 stigum í síðustu sjö leikjum, sem allir hafa endað með jafntefli. Þar með hefur liðið dregist talsvert afturúr toppliðunum, enda þótt City hafi enn aðeins tapað einum af fyrstu 13 leikjum sínum.

Mourinho er við stjórnvölinn hjá Inter Mílanó en hefur látið í ljósi að undanförnu að hann sé ekki sáttur við gang mála þar og sé til í að koma aftur til starfa í Englandi. Chelsea varð tvívegis enskur meistari undir hans stjórn, 2005 og 2006.

Hinir arabísku eigendur City hafa lengi haft augastað á Torres og eru sagðir ætla að gera Liverpool 50 milljón punda tilboð í hann í sumar. Þeir séu í raun sagðir til í að greiða hvað sem er til að fá Spánverjann í sínar raðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert