Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, óskaði Ryan Giggs til hamingju með 36 ára afmælið, sem er í dag, að loknum sigrinum gegn Portsmouth, 4:1, í ensku úrvalsdeildinni í gær.
„Giggs er einstakur leikmaður, fágætt eintak. Hann mun spila í tvö ár til viðbótar. Til hamingju með afmælið - þetta er það 36. en bíðið bara þar til hann verður 67 ára. Ég held reyndar að hann verði hættur þá," s agði Ferguson og kvaðst reikna með Giggs í fullu fjöri með Manchester United næstu tvö árin.
Ferguson gat ekki stillt sig um að senda dómaratríóinu sneið eftir leikinn, sérstaklega öðrum aðstoðardómaranum sem dæmdi vítaspyrnu á Manchester United.
„Aðstoðardómarinn setti dómarinn í erfiða stöðu, að þurfa að taka mark á aðstoðardómara sem var í 50 metra fjarlægð. Svona hlutir gerast í hverjum leik. Ef reglan er sú að allir sem toga í treyju sóknarmanns eða ýta honum frá sér fá á sig vítaspyrnu, þá er það í fínu lagi. En þannnig er það ekki og þessi aðstoðardómari fór algjörlega á skjön við eðlilega ákvarðanatöku," sagði Ferguson.
Kevin-Prince Boateng jafnaði fyrir Portsmouth úr umræddri vítaspyrnu en United tryggði sér öruggan sigur þar sem Wayne Rooney skoraði þrjú fyrstu mörkin, tvö þeirra úr vítaspyrnum, og Ryan Giggs innsiglaði sigurinn gegn Hermanni Hreiðarssyni og félögum hans rétt fyrir leikslok.
Markið hjá Giggs var hans 100. mark fyrir Manchester United í úrvalsdeildinni.