Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur samið að nýju við ítalska táninginn Federico Macheda og hann er nú samningsbundinn meisturunum til ársins 2014.
Macheda er 18 ára gamall og sló í gegn í apríl á þessu ári þegar hann skoraði magnað sigurmark gegn Aston Villa í fyrsta leik sínum með liðinu í úrvalsdeildinni.
„Það þekkja allir hjá félaginu hversu geysilegt efni hann er og við vonumst eftir því að sjá hann þróast og þroskast á næstu árum," sagði Alex Ferguson við vef félagsins.
Macheda hefur nú skorað tvö mörk í tíu leikjum fyrir United. Hann er frá Róm og kom til United frá Lazio haustið 2007, þá nýorðinn 16 ára gamall. Samkvæmt ítölskum reglum gat Lazio ekki gert atvinnusamning við hann fyrr en hann yrði 18 ára. Fjölskylda Macheda flutti með honum til Manchester strax um haustið.
Macheda hefur leikið með yngri landsliðum Ítalíu og spilaði sinn fyrsta leik með 21-árs landsliði þjóðar sinnar í ágúst.