Hermann Hreiðarsson skoraði fyrra mark Portsmouth þegar liðið lagði Burnley, 2:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Fratton Park í dag. Hermann skoraði markið um miðjan seinni hálfleik með hnitmiðuðu skoti úr vítateignum og 10 mínútum fyrir leikslok innsiglaði Aruna Dindane sigur heimamanna.
Hermann fékk vítaspyrnu í fyrri hálfleik þegar hann féll við í teignum en Brian Jensen markvörður Burnley varði spyrnu Dindane.
Portsmouth komst með sigrinum úr botnsætinu en liðið hefur 10 stig eins og Wolves sem situr nú á botni deildarinnar. Hermann lék allan tímann og stóð fyrir sínu sem og endranær en Jóhannes Karl Guðjónsson sat allan tímann á bekknum.