Leeds mætir Manchester United

Leikmenn Manchester United fögnuðu í Wolfsburg í kvöld og þeir …
Leikmenn Manchester United fögnuðu í Wolfsburg í kvöld og þeir mæta Leeds í bikarnum. Reuters

Viðureign á milli Manchester United og Leeds hefði einhvern tíma þótt stórtíðindi en liðin hafa lítið verið í námunda hvort við annað síðustu árin. En nú verður breyting á, Leeds vann utandeildaliðið Kettering, 5:1, í framlengdum leik í kvöld og sækir Manchester United heim í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu þann 2. janúar.

Leeds trónir nú á toppi 2. deildar eftir erfitt gengi undanfarin ár og virðist líklegt til að komast á ný uppí næstefstu deild. Liðið lenti þó í mesta basli með Kettering, liðin gerðu 1:1 jafntefli á heimavelli utandeildaliðsins á dögunum og aftur á Elland Road í gærkvöld.

Það var svo í seinni hálfleik framlengingar sem allt brast hjá Kettering, Leeds skoraði fjórum sinnum og horfir nú til síns stærsta leiks um árabil gegn meisturunum á Old Trafford. Mike Grella skoraði tvö mörk fyrir Leeds, Tresor Kandol, Jermaine Beckford og Leigh Bromby sitt markið hver.

Fyrrum Eyjamaður skoraði

Marc Goodfellow, sem lék nokkra leiki með ÍBV sumarið 2001, skoraði fyrir utandeildaliðið Barrow í kvöld þegar það vann Oxford United, 3:1. Barrow komst þar með í 3. umferð bikarsins og fær að launum leik gegn úrvalsdeildarliðinu Sunderland.

Goodfellow, sem var lánsmaður frá Stoke City á sínum tíma, hefur gert víðreist eftir Eyjadvölina og leikið með átta enskum liðum á jafnmörgum árum. Hann er nú í láni hjá Barrow frá 3. deildarliðinu Burton Albion.

Luton Town, sem nú er utandeildalið, komst líka í 3. umferð með því að vinna Rotherham, 3:0, og mætir Southampton.

Tranmere, litla liðið í Liverpool sem nú er á botni 2. deildar, er komið áfram og mætir úrvalsdeildarliði Wolves.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert