Michael Owen, sem skoraði öll þrjú mörk Manchester United gegn Wolfsburg í Þýskalandi í kvöld þegar ensku meistararnir lögðu þá þýsku, 3:1, í Meistaradeild Evrópu, vildi ekki gera mikið úr eigin frammistöðu eftir leikinn.
„Sennilega verður það þrennan mín sem fer í fyrirsagnirnar en þetta var fyrst og fremst frábær frammistaða liðsheildarinnar," sagði Owen við Sky Sports.
Hann kom United yfir seint í fyrri hálfleik og tryggði liðinu síðan sigurinn með því að skora tvívegis á síðustu sjö mínútunum. Wolfsburg varð að vinna leikinn til að komast í 16-liða úrslitin, og hefði um leið sett United niður í annað sæti riðilsins.
„Það er flott að hafa náð að vinna riðilinn og þar með fáum við seinni leikinn á heimavelli í 16-liða úrslitunum. Ég leyni því ekki að mig langar til að fá eitthvert af veikari liðunum á því stigi keppninnar. Vissulega eru engin slök lið eftir þegar svona langt er komið en maður vill að sjálfsögðu forðast þau stærstu," sagði Owen.