Kristján Gauti Emilsson er orðinn leikmaður Liverpool en hann skrifaði nú á fjórða tímanum undir þriggja ára samning við enska úrvalsdeildarliðið. Þar með eru tveir íslenskir knattspyrnumenn á mála hjá þessu fornfræga félagi en fyrir er Guðlaugur Victor Pálsson.
Kristján Gauti er 16 ára gamall miðjumaður sem hefur slegið í gegn á þessu ári. Hann lék þrjá leiki með Íslandsmeisturum FH í Pepsi-deildinni í sumar, þar af einn í byrjunarliðinu, og vakti frammistaða hans mikla athygli. Þá hefur hann leikið með þremur landsliðum á árinu U17, U18 og U19 ára liðunum.
Mörg erlend félög vildu fá Kristján Gauta í sínar raðir en hann ákvað að taka tilboði Liverpool, liðinu sem hann hefur haldið með frá því hann var smástrákur.